Fréttir

 

Við notum samskiptakerfið mentor.is og ætlumst til að allir foreldrar og nemendur fylgist með þar.

Inn á mentor eru skráðar námsáætlanir, markmið, heimanám, ástundun, einkunnir og margt fleira.

 

http://mentor.is/

Samkennsla

Samkennsla fer fram í skólanum í aldursblönduðum námshópi. Í fámennum skólum úti á landi er samkennsla oft komin til vegna fámennis í bekkjardeildum en í stórum skólum á höfuðborgasvæðinu er þetta oft á tíðum val hvers skóla.

 

Oft er tveimur eða fleiri árgöngum kennt saman í einum bekk og þá án varanlegrar aðgreiningar eftir aldri eða námsgetu. Í samkennsluhópi eru nemendur á misjöfnum aldri og búa yfir misjöfnum þroska og getu.  Nemendur læra að það sé eðlilegt að vinna mishratt og að hver nemandi læri á eigin hraða og hver og einn fái sitt nám metið eftir því sem við á.

 

Kostir

Þar sem nemendur eru á ólíkum aldri festast þeir síður í ákveðinni stöðu þar sem nemendahópurinn er síbreytilegur. Einstaklingurinn verður sýnilegri og í blönduðum hópi getur skapast góður námsandi, Þar má vera rólegur og þar má vera duglegur. Þeir eldri læra að taka tillit til þeirra sem yngri eru og þeir yngri leita til þeirra eldri eftir aðstoð.

 

Rannsóknir

Geyfer (1990) sýndi fram á í rannsóknum sínum að nemendur í samkennsluhópi höfðu yfirburði í námstækni, félagslegum samskiptum, samvinnu og viðhorfum gagnvart námi og menntun miðað við nemendur í hefðbundnum bekk. Nemendur úr samkennsluhópum verða ábyrgðarfyllri og tillitssamari.                      
(Tomlinson og Demirsky Allan (2000) Ledership for Differentiagting Schools and classrooms)

 

Kennsla í aldursblönduðum hópum getur líka losað námskrána úr höftum aldursbindingar. Samvinna barna innbyrðis gegnir mikilvægu hlutverki í námi. Samvinna nemenda með mismunandi þekkingu og mismunandi þroska örvar skapandi og gagnrýna hugsun og vitrænan þroska. Nemendur öðlast með þessu færni til að vinna með yngri nemendum og með eldri nemendum. Eldri nemendur leiðbeina þeim yngri og yngri nemendur leita oft  frekar til nemenda en kennara.

 

Rannsóknir á samvinnunámi í blönduðum hópum benda til þess að það sé eitt öflugasta námsform sem til er og komi öllum til góða hver sem námsleg staða þeirra er Aldursblöndun skapar því kjöraðstæður fyrir samvinnunám og félagastuðning í námi. Rannsóknir benda einnig til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og efli forystu og félagslega ábyrga hegðun, svo sem að hjálpast að, deila, skiptast á og taka tillit til annarra.
(Úr bók Lilian Katz, Demetrea Evangelou og Jeanetta Allison Hartman (1990) The case for mixed-age grouping in early education.  Washington D.C,; National Association for the Education of young children.)

Vinnustofur
Vinnustofur Suðurhliðarskóla eru þróaðar út frá hugmynd og framkvæmd sambærilegara vinnustofa Grunnskólans á Bakkafirði.

Þar reynum við að koma til móts við áhugasvið nemenda út frá samfélagsfræði, náttúrufræði og íslensku.

Námskráin í vinnustofum er unnin ýmist af kennurum eða nemendum.
Reglan er sú að kennarar stýra vinnustofum meðan nemendur læra vinnuferlið. Í upphafi velja kennarar viðfangsefnið og stýra vinnunni en svo þegar nemendur hafa náð sæmilegum tökum á ferlinu er boðið upp á vinnustofur þar sem nemendur setja sér sín eigin viðfangsefni og markmið í samráði við kennara. Lokapunktur hverrar vinnustofu er kynning nemenda á afrakstrinum fyrir hinum nemendum bekkjarins eða jafnvel öllum nemendum skólans. Oft er foreldrum einnig boðið að koma á kynningu.
Fyrsta vinnustofan hvers vetrar er tengd Uppbyggingarstefnunni. Þar leggjum við mikla vinnu í bekkjarsáttmála og fleiri verkefni sem skerpa sameiginlega sýn okkar á hvernig við getum gert skólann okkar sem bestan það skólaár. 


Sálfræðingurinn Vygotsky segir að verkefni nemenda verði að vera hæfilega erfið. Einnig talar hann um að hvatning og stuðningur kennara séu mikilvægir þættir þess að verkefni skili árangri, séu verkefni of einföld eða of þung eigi ekkert nám sér stað. Vygotsky leggur áherslu á að farinn sé millivegur sem kennarar þurfa að þekka og velja. Þessi millivegur er ekki sá sami hjá öllum og þess vegna er einstaklingsmiðun nauðsynleg.

Við vitum að betri árangur næst ef byggt er á áhuga nemenda þegar verkefni eru valin eða þegar okkur tekst að vekja forvitni þeirra og áhuga. Nemendum er gefið frjálsræði sem eykur sköpunargáfu þeirra og gagnrýna hugsun.


(sbr. Tomlinson, C.A. and Allan S.D. 2000: 18-21)

Með einstaklingsmiðun er lögð áhersla á að þörfum einstaklingsins sé mætt, óháð þörfum hópsins. Í nemendahópnum eru alltaf einhverjir sem þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í gegnum námsefnið á meðan aðrir kunna það nánast áður en það er kennt og þurfa því lítið að leggja á sig. Með einstaklingsmiðun er hverjum nemanda mætt sem hann er staddur án þess þó að kröfurnar breytist. Nemendur læra ekki endilega allir það sama á sama tíma heldur geta þeir fengist við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt. Hver og einn vinnur á eigin hraða - ýmist einn, í paravinnu eða hópvinnu. Talsverð áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námi, að áhugi hans sé virkjaður og hann sé virkur þátttakandi. Það að nemendur eru í fámennum, aldursblönduðum bekkjum gerir einstaklingsmiðun auðveldari.

 

Við förum ýmsar leiðir til að mæta einstaklingsþörfum nemenda.  Á yngsta stigi og miðstigi mótar kennari iðulega áætlun með nemendum í kjarnafögum þar sem námsefni, áhersluþættir og aðferðir eru miðaðar út frá hverjum og einum. Gætt er að því að námsumhverfi og námsgögn séu í takt við þarfir og getu hvers og eins. Áætlunarbókin (Skjóða) er notuð á yngsta- og miðstigi og er líka heimanámsbók. Þar geta foreldrar fylgst með því hvort nemendur nái áætlun og hvernig þeim gengur. Skjóða er alltaf í töskunni og fylgir því nemandanum í skólann og heim á hverjum degi.
Á unglingastigi eru fleiri fagkennarar og er þá hvert fag skipulagt af sínum fagkennara. Áætlanir eru skráðar á mentor.is og geta nemendur og foreldrar nálgast þær þar.
Á öllum stigum vinnum við náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku (að hluta) og upplýsingatækni í vinnustofum. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og mörg yfir árið og verkefnunum eru sjaldan skorður settar. Í vinnustofum eru nemendur hvattir til að vinna með sína styrkleika og í stórum, opnum verkefnum er það alltaf kostur ef nemandinn tengir verkefnið sínu áhugasviði á einhvern hátt. 

 

Einstaklingsmiðað nám felur í sér að nemandinn er í brennidepli. Þar eiga kostir og styrkur hvers nemanda að njóta sín. Helstu kennimenn þessara kenninga eru ekki ómerkari menn en John Dewey og Jerome Bruner. Howart Gardner er helsti talsmaður fjölgreindarkenningarinnar og mælir líka með einstaklingsmiðun. Hann segir að nemendur hafi ólíka styrkleika og þurfi að fá að nálgast námsefnið á eigin forsendum.


Með áætlun og vinnustofum erum við sífellt að færa okkur lengra í átt að einstaklingsmiðuðu námi.

Log in