Einstaklingsmiðað nám

Einstaklingsmiðað nám

Með einstaklingsmiðun er lögð áhersla á að þörfum einstaklingsins sé mætt, óháð þörfum hópsins. Í nemendahópnum eru alltaf einhverjir sem þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í gegnum námsefnið á meðan aðrir kunna það nánast áður en það er kennt og þurfa því lítið að leggja á sig. Með einstaklingsmiðun er hverjum nemanda mætt sem hann er staddur án þess þó að kröfurnar breytist. Nemendur læra ekki endilega allir það sama á sama tíma heldur geta þeir fengist við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt. Hver og einn vinnur á eigin hraða - ýmist einn, í paravinnu eða hópvinnu. Talsverð áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námi, að áhugi hans sé virkjaður og hann sé virkur þátttakandi. Það að nemendur eru í fámennum, aldursblönduðum bekkjum gerir einstaklingsmiðun auðveldari.

 

Við förum ýmsar leiðir til að mæta einstaklingsþörfum nemenda.  Á yngsta stigi og miðstigi mótar kennari iðulega áætlun með nemendum í kjarnafögum þar sem námsefni, áhersluþættir og aðferðir eru miðaðar út frá hverjum og einum. Gætt er að því að námsumhverfi og námsgögn séu í takt við þarfir og getu hvers og eins. Áætlunarbókin (Skjóða) er notuð á yngsta- og miðstigi og er líka heimanámsbók. Þar geta foreldrar fylgst með því hvort nemendur nái áætlun og hvernig þeim gengur. Skjóða er alltaf í töskunni og fylgir því nemandanum í skólann og heim á hverjum degi.
Á unglingastigi eru fleiri fagkennarar og er þá hvert fag skipulagt af sínum fagkennara. Áætlanir eru skráðar á mentor.is og geta nemendur og foreldrar nálgast þær þar.
Á öllum stigum vinnum við náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku (að hluta) og upplýsingatækni í vinnustofum. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og mörg yfir árið og verkefnunum eru sjaldan skorður settar. Í vinnustofum eru nemendur hvattir til að vinna með sína styrkleika og í stórum, opnum verkefnum er það alltaf kostur ef nemandinn tengir verkefnið sínu áhugasviði á einhvern hátt. 

 

Einstaklingsmiðað nám felur í sér að nemandinn er í brennidepli. Þar eiga kostir og styrkur hvers nemanda að njóta sín. Helstu kennimenn þessara kenninga eru ekki ómerkari menn en John Dewey og Jerome Bruner. Howart Gardner er helsti talsmaður fjölgreindarkenningarinnar og mælir líka með einstaklingsmiðun. Hann segir að nemendur hafi ólíka styrkleika og þurfi að fá að nálgast námsefnið á eigin forsendum.


Með áætlun og vinnustofum erum við sífellt að færa okkur lengra í átt að einstaklingsmiðuðu námi.

Log in