Samkennsla

Samkennsla

Samkennsla

Samkennsla fer fram í skólanum í aldursblönduðum námshópi. Í fámennum skólum úti á landi er samkennsla oft komin til vegna fámennis í bekkjardeildum en í stórum skólum á höfuðborgasvæðinu er þetta oft á tíðum val hvers skóla.

 

Oft er tveimur eða fleiri árgöngum kennt saman í einum bekk og þá án varanlegrar aðgreiningar eftir aldri eða námsgetu. Í samkennsluhópi eru nemendur á misjöfnum aldri og búa yfir misjöfnum þroska og getu.  Nemendur læra að það sé eðlilegt að vinna mishratt og að hver nemandi læri á eigin hraða og hver og einn fái sitt nám metið eftir því sem við á.

 

Kostir

Þar sem nemendur eru á ólíkum aldri festast þeir síður í ákveðinni stöðu þar sem nemendahópurinn er síbreytilegur. Einstaklingurinn verður sýnilegri og í blönduðum hópi getur skapast góður námsandi, Þar má vera rólegur og þar má vera duglegur. Þeir eldri læra að taka tillit til þeirra sem yngri eru og þeir yngri leita til þeirra eldri eftir aðstoð.

 

Rannsóknir

Geyfer (1990) sýndi fram á í rannsóknum sínum að nemendur í samkennsluhópi höfðu yfirburði í námstækni, félagslegum samskiptum, samvinnu og viðhorfum gagnvart námi og menntun miðað við nemendur í hefðbundnum bekk. Nemendur úr samkennsluhópum verða ábyrgðarfyllri og tillitssamari.                      
(Tomlinson og Demirsky Allan (2000) Ledership for Differentiagting Schools and classrooms)

 

Kennsla í aldursblönduðum hópum getur líka losað námskrána úr höftum aldursbindingar. Samvinna barna innbyrðis gegnir mikilvægu hlutverki í námi. Samvinna nemenda með mismunandi þekkingu og mismunandi þroska örvar skapandi og gagnrýna hugsun og vitrænan þroska. Nemendur öðlast með þessu færni til að vinna með yngri nemendum og með eldri nemendum. Eldri nemendur leiðbeina þeim yngri og yngri nemendur leita oft  frekar til nemenda en kennara.

 

Rannsóknir á samvinnunámi í blönduðum hópum benda til þess að það sé eitt öflugasta námsform sem til er og komi öllum til góða hver sem námsleg staða þeirra er Aldursblöndun skapar því kjöraðstæður fyrir samvinnunám og félagastuðning í námi. Rannsóknir benda einnig til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og efli forystu og félagslega ábyrga hegðun, svo sem að hjálpast að, deila, skiptast á og taka tillit til annarra.
(Úr bók Lilian Katz, Demetrea Evangelou og Jeanetta Allison Hartman (1990) The case for mixed-age grouping in early education.  Washington D.C,; National Association for the Education of young children.)

Log in