Þátttökunám

Vinnustofur, þátttökunám

Vinnustofur
Vinnustofur Suðurhliðarskóla eru þróaðar út frá hugmynd og framkvæmd sambærilegara vinnustofa Grunnskólans á Bakkafirði.

Þar reynum við að koma til móts við áhugasvið nemenda út frá samfélagsfræði, náttúrufræði og íslensku.

Námskráin í vinnustofum er unnin ýmist af kennurum eða nemendum.
Reglan er sú að kennarar stýra vinnustofum meðan nemendur læra vinnuferlið. Í upphafi velja kennarar viðfangsefnið og stýra vinnunni en svo þegar nemendur hafa náð sæmilegum tökum á ferlinu er boðið upp á vinnustofur þar sem nemendur setja sér sín eigin viðfangsefni og markmið í samráði við kennara. Lokapunktur hverrar vinnustofu er kynning nemenda á afrakstrinum fyrir hinum nemendum bekkjarins eða jafnvel öllum nemendum skólans. Oft er foreldrum einnig boðið að koma á kynningu.
Fyrsta vinnustofan hvers vetrar er tengd Uppbyggingarstefnunni. Þar leggjum við mikla vinnu í bekkjarsáttmála og fleiri verkefni sem skerpa sameiginlega sýn okkar á hvernig við getum gert skólann okkar sem bestan það skólaár. 


Sálfræðingurinn Vygotsky segir að verkefni nemenda verði að vera hæfilega erfið. Einnig talar hann um að hvatning og stuðningur kennara séu mikilvægir þættir þess að verkefni skili árangri, séu verkefni of einföld eða of þung eigi ekkert nám sér stað. Vygotsky leggur áherslu á að farinn sé millivegur sem kennarar þurfa að þekka og velja. Þessi millivegur er ekki sá sami hjá öllum og þess vegna er einstaklingsmiðun nauðsynleg.

Við vitum að betri árangur næst ef byggt er á áhuga nemenda þegar verkefni eru valin eða þegar okkur tekst að vekja forvitni þeirra og áhuga. Nemendum er gefið frjálsræði sem eykur sköpunargáfu þeirra og gagnrýna hugsun.


(sbr. Tomlinson, C.A. and Allan S.D. 2000: 18-21)

Log in