Vinaskólar

Vinaskólar

Ekrehagen skole, Tromsø

Ekrehagen skole er rekinn af Aðventkirkjunni í Noregi. Hann er heldur fámennur grunnskóli, en nemendafjöldi hans er u.þ.b. tvöfaldur nemendafjöldi Suðurhlíðarskóla. Í Ekrehagen er samkennsla líkt og í Suðurhlíðarskóla.

Suðurhlíðarskóli og Ekrehagen hafa átt farsælt vinasamband undanfarin 4 ár. Annað hvert ár koma 9. og 10. bekkingar Ekrehagen í viku heimsókn til okkar í Suðurhlíð og annað hvert ár fara 9. og 10. bekkingar Suðurhlíðarskóla í heimsókn til þeirra til Tromsø. Kennarar beggja skólanna leggja mikla áherslu á að nemendur eigi sem mest samskipti í gegnum vinnu og leik, kynnist og upplifi menningu hvers annars og auki víðsýni sína með vinatengslum yfir lönd og haf.  

 

Vinagarður leikskóli

Vinagarður er kristilegur leikskóli, staðsettur í Laugardalnum í Reykjavík. Leikskólinn er einkaskóli, rekinn af KFUM&KFUK á Íslandi.

Starf leikskólans tekur mið af aðalnámsskrá leikskóla en auk þess er gengið út frá forsendum kristinnar trúar og áhersla lögð á kristna fræðslu, kristilegt siðgæði og að barnið öðlist grundvallartraust sem er viðfangsefni í trúarlegri uppeldismótun.

Í starfi leikskólans er lögð áhersla á að börnin læri um náttúruna, læri að bera umhyggju fyrir henni og öllu því sem Guð hefur skapað.

Vináttan í víðum skilningi þess orðs er eins og rauður þráður í starfi leikskólans og er hún eitt af sérkennum hans. Vináttan tengist hverju þema á einhvern hátt.

Skólinn er fyrir börn frá 18 mánaða aldri og skiptist í 5 deildir eftir aldri barnanna. Yngstu börnin eru á Lambagarði og Ungagarði, Kópagarður og Grísagarður eru fyrir 3 - 4 ára börnin og Uglugarður er fyrir 5 ára börnin.

Suðurhlíðarskóli hefur boðið skólahóp Vinagarðs í heimsókn á hverju ári og hafa nemendur ekki síður gaman af heimsókn þeirra en starfsfólkið.  

 

Samstarf við vinaskólana er okkur verulega dýrmætt og við viljum svo sannarlega hlúa að því og halda áfram að sjá það blómstra um ókomin ár.

 

 

 

More in this category: « Starfsfólk Opnunartími »

Log in