Uppeldi til ábyrgðar

Uppbyggingarstefnan - Uppeldi til ábyrgðar

Helstu einkenni uppbyggingarstefnunnar

Uppeldi til ábyrgðar eða Uppbyggingarstefnan eins og hún er gjarnan kölluð, byggir á samtalstækni sem notast við afbrigði af lykilspurningum úr samtalsmeðferð Dr. Glasser, lærimeistara Diane Gossen.

 

Stefnan felst í því að byggja upp sjálfsaga og ábyrgð hjá einstaklingum með samræðum um lífsgildi og eigið sjálf. Hún varar við umbunum en hefur að leiðarljósi að setja skýr mörk um hegðun og þróa leiðir til að halda sig innan þeirra marka.

 

Lögð er áhersla á lífsgildin fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og virðingu fremur en ytri umbun. Nemendum er kennt að bera ábyrgð á eigin orðum og gerðum (Álftanesskóli 2009).

 

Það sem Uppbyggingarstefnan leitast við að ná fram hjá einstaklingum er:

 • Ábyrgðarkennd

 • Sjálfstjórn

 • Ræða um tilfinningar

 • Átta sig á þörfum sínum

 • Læra af sínum eigin mistökum

 

Markmið uppbyggingarstefnunar eru að nemendur læri:

 • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir og stunda sjálfsrannsókn

 • Að rækta og efla sinn innri áhuga

 • Að bera ábyrgð á eigin námi

 • Að læra leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun

 • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum

 • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau

 • Að verða þeir sjálfir - þær manneskjur sem þeir vilja vera.

Uppbyggingarstefnan styrkir fjölskyldubönd og lundarfar þar sem nemendurnir flytja með sér heim úr skólanum umræður um lífsgildi og velta því fyrir sér hvernig manneskjur þeir vilji vera. Lífsgildi líkt og umhyggja, virðing og heiðarleiki eru svo höfð að leiðarljósi í samskiptum allra í skólastofunni. Reynt er eftir bestu getu að forðast að predika yfir nemendum, vekja hjá þeim sektarkennd eða umbuna þeim á einhvern hátt til að ná fram æskilegri hegðun

 

Stefnan byggir á þeirri meginhugmynd að einstaklingar séu fæddir með sjálfstæðan vilja og að áhugi þeirra komi innanfrá. Hún er ferli sem kennir ungu fólki sjálfsaga

 

Diane Gossen skilgreinir uppbyggingu á þennan hátt:

 „Að skapa skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun.”

 

"Það er ég sem ræð" hugmyndafræðin - er ekki vænleg til árangurs

Glasser segir helstu skýringuna á áhugaleysi og slökum árangri nemenda vera þá að kennarar og stjórnendur noti ranga hugmyndafræði við stjórnun nemenda, „það er ég sem ræð” hugmyndafræðina sem sé ríkjandi í kennslustofum og skólanum í heild. Hann telur að þeir sem vinni eftir þessari aðferð skilji ekki innri áhugahvöt og því sem stjórnar hegðun fólks. Aðferðin feli í sér valdboð sem fæstir þoli vegna þess að aðferðin byggi á þvingun sem leiði til þess að starfsmaðurinn eða nemandinn verði andstæðingur stjórnandans (Glasser, 1992).

 

Vænlegri leið sé að veita sterka forystu og reyna að virkja aðra með viðræðum, samstarfi og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Sjálfsstjórnunarkenningin

Dr. Glasser, lærifaðir Dian Gossen, byggir sjálfsstjórnunarkenninguna sína á því að einstaklingar stjórnast af innri hvötum, engir tveir einstaklingar sjá veruleikann á sama hátt og þeir geta aðeins stjórnað sjálfum sér en ekki öðrum.

 

Tekið af vefnum: http://uppbyggingarstefnanogjakvaeduragi.weebly.com/einkenni--uppbyggingarstefnan.html

 

Log in