Árshátíð

Í gær var árshátíð hér í Suðurhlíðarskóla. Henni var tvískipt: 1.-7. bekkur fagnaði prúðbúinn fyrri hluta dagsins og 8.-10. bekkur mætti galvaskur um kvöldverðarleytið.

Hér var mikið sprell og húllum hæ allan daginn. Unglingarnir komu allir klæddir sem ,,látinn, frægur einstaklingur” og virkilega gaman að sjá hugmyndaauðgina hjá þeim.

Árshátíðin okkar er smá í sniðum og við leggjum mikið upp úr heimagerðum skemmtiatriðum og aðkomu sem flestra nemenda. Í ár var svo sannarlega enginn hörgull á skemmtiatriðum og unglingarnir náðu ekki einu sinni að klára sína efnisskrá, jafnvel þótt sjálf Jane Austen og Sókrates héldu utan um skipulagið. Við eigum síðustu leikina bara til góða.

Yngri hópurinn fékk pizzu úr smiðju Kristjönu matráðs en sjá mátti JFK, Charlie Chaplin, Pablo Escobar, Lucy Ball og jafnvel Einstein sjálfan steikja handa unglingunum hamborgara.