Póstkort frá Noregi, dagar 4, 5 og 6
Kæru vinir og velunnarar
Dagur 4 hófst seint því við vöktum svo lengi í gær (partý með norsku krökkunum – munið – við sögðum ykkur frá því í síðasta póstkorti). Við fengum jógúrt og ávexti í morgunmat og skelltum okkur svo í tíma þar sem við kynntum verkefnin sem við höfðum unnið í smáum hópum með nemendum Ekrehagen. Kynningarnar gengu flestar vel og við vorum bara nokkuð ánægð með þetta. Allur hópurinn borðaði hádegismat saman og það var aldeilis hlaðborðið! Afgangar af öllu sem við höfum borðað síðan við komum… eitthvað fyrir alla. Norsku krakkarnir voru svakalega ánægðir með íslensku hafragrautsklattana okkar sem voru bakaði fyrir morgunmatinn í gær og þau kláruðu eiginlega allt Nugatti-ið okkar með þeim svo við þurftum að kaupa nýtt. Það var allt í lagi,
Eftir hádegismat fórum við í Polaria. Trømseyingar eru mjög stoltir af því svo við ákváðum að kíkja – og það var vel þess virði. Við byrjuðum á að horfa á heimildarmyndir um Svalbarða, norðurljósin og um safnið sjálft. Við sáum fullt af fiskum, fengum að klappa þeim (á eigin ábyrgð – þeir geta víst bitið!) og sáum þegar selirnir voru þjálfaðir og þeim gefið. Einhverjir selanna eru 300 kg, enda alveg svakalega stórir! Við tókum fullt af myndum.
Næst var það Burger King. Okkur tókst að koma pöntuninni okkar í gegn í 4. tilraun í sjálfsafgreiðslukassanum – það tók okkur lengri tíma að panta en renna niður ljúffengu hamborgurunum! Södd og sæl skunduðum við aftur í skólann, þreytt eftir undanfarna daga og ákváðum að slaka bara á og fara snemma að sofa.
Hvíldardaginn (dag 5) héldum við að sjálfsögðu eins og hann var hugsaður frá upphafi. Eftir góðan morgunmat fórum við í heimsókn í Aðventkirkjuna í Tromsø. 5. og 6. bekkur Ekrehagen sá um guðþjónustuna og þau gerðu það svakalega vel. Við fengum túlk, sem þýddi yfir á ensku, svo við gátum fylgst vel með öllu sem átti sér stað. Í lokin var okkur boðið upp á pizzu frá Pizzabakeren og í þetta skiptið var sko passað upp á að það væri nóg af Margaritum (við elskum Margaritur!).
Miriam, kennari Ekrehagen og einn helsti stólpinn í samstarfi skólanna, kom til okkar í skólann eftir kirkju með öll gönguskíðin sem hún fann í bílskúrnum sínum. Til allrar hamingju eru þau fjölskyldan í mjög mismunandi skóstærðum svo hún átti skó sem pössuðu á okkur öll og allir sem vildu máttu prófa skíðin. Við sýndum flest frekar slaka færni á skíðum… svona til að byrja með allavegana. Við tókum þó miklum og skjótum framförum í að standa upp (eftir að hafa dottið). Snjórinn var mjúkur og þurr svo föllin voru mjúk og því slasaðist enginn. Það er alveg geggjuð gönguskíðabraut hér beint fyrir aftan skólann og maður getur auðveldlega (-eða sko Tromseyingar… þeir sem eru vanir skíðamenn) ferðast um langan veg á skömmum tíma. Þetta var svooo skemmtilegt, svooo fallegt (snjóaði og snjóaði) og svooo skemmtilegt – vorum við búin að segja það?
Sunnudagurinn (dagur 6) hófst með brunch hér í skólanum; amerískar pönnukökur, kjúklingapylsur, eggjahræra, brauð, skyr, jógúrt… við átum á okkur gat! – sem var gott, því löng ökuferð til Sommarøya var framundan. Við höfðum einhver laus pláss í bílunum svo 2 nemendur Ekrehagen skelltu sér með. Það var rosalega gaman að hafa þá því þeir eru alveg jafn hressir skemmtilegir og við! Helst viljum við taka þá með okkur heim, en það verður líka gott að vita af þeim hér ef leiðir okkar liggja hingað síðar í lífinu.
Við stoppuðum á nokkrum stöðum í ökuferðinni: á gyllta sólar/snjóströnd (hvar 2 úr hópnum gerðu sér lítið fyrir og skelltu sér út í sjó), á bryggju (reyndum að veiða en fengum ekkert!), í Hågøya (skoðuðum minnisvarða um sigur Breta á stóru, þýsku herskipi) og í fallega húsinu hennar Adelinn (sem er skólastjórinn í Ekrehagen). Hjá Adelinn fengum við svakalega góða súpu, brauð, köku og ís. Þvílíkt dekur! Einnig sáum við hellaristur sem taldar eru vera frá því 7000 f.Kr. Við reyndum að ráða í þær og náðum að setja þær saman í mjög spennandi sögu með geimverum, köttum og fleiri kynjaverum. Það væri örugglega hægt að breyta þeirri sögu í kvikmynd.
Á leiðinni heim keyrðum við í gegnum ósköp venjulegt hverfi í Kvaløja, nema þar býr Saminn sem á öll hreindýrin í eyjunni; hann fóðrar dýrin í garðinum sínum svo það eru ávallt nokkur á vappi í kringum húsið hans. Nágrannarnir hafa strengt kaðla í kringum sín hús til að halda dýrunum fjarri matjurtargörðunum þeirra og eru víst ekkert allt of ánægðir með veru ferfætlinganna í götunni, en okkur fannst þetta alveg magnað! Þó við höfum kannski oft séð hreindýr í Húsdýragarðinum var þetta miklu flottara!
Þegar við komum heim úr ökuferðinni tókum við annan norska ferðafélagann með okkur í skólann (hinn þurfti að fara heim) og hér var mikið líf og fjör fram eftir kvöldi. Þeir sem vildu, máttu fara aftur á gönguskíðin, en hinir dönsuðu Kónga, sungu og skemmtu sér langt fram á kvöld.
Nú er þetta póstkort alveg orðið nokkrum línum of langt svo við látum staðar numið og segjum ykkur frá síðasta deginum og ferðinni heim í næsta póstkorti.
Hafið það gott á Íslandi! Við skemmtum okkur frábærlega hér og höfum lítinn tíma til að sakna ykkar – en þykir samt verulega vænt um ykkur.
Sjáumst bráðlega!
Kær kveðja, Noregsfarar 2023