Póstkort frá Noregi – Lokadagurinn og heimferðin

Kæru vinir og velunnarar.

Lokadagurinn var alveg pakkaður hjá okkur! Við áttum smá næðisstund í skólanum snemma um morguninn en gengum svo á vísindasafnið Vitensentered með norska 9. bekknum – heppilegt að það sé staðsett svona nálægt skólanum. Þar unnum við verkefni í smáum hópum í nýsköpun og sjálfbærni; hönnuðum afurð og bjuggum til pródótýpur úr pípuhreinsum, íspinnum, korktöppum og fleiru. Við fundum upp svo margar skapandi lausnir að við erum eiginlega tilbúin til að bjarga heiminum – látið okkur bara vita hvað þið þurfið!

Eftir að hafa hugsað svona stíft fengum við að flögra frjáls um safnið; fikta, tæta og forvitnast eins og okkur lysti! Til að geta skoðað hlutina þurfti maður að vera þátttakandi; snúa skífum, kasta boltum, toga/ýta/snúa… og það var bara ótrúlega skemmtilegt. Þetta safn er eiginlega sérhannaður leikvöllur fyrir handóða unglinga.

Sum okkar hefðu getað dvalið allan daginn á safninu, en tveir nemendur norska 9. bekkjarins höfðu undirbúið stutta leiðsögn fyrir okkur um helstu kennileiti miðbæjarins svo við skunduðum þangað. Merkileg staðreynd; undir bókasafninu og ráðhúsinu (sem eru samtengdar byggingar) er kvikmyndahús. Svolítið skrýtið.

Við röltum aðeins um og skoðuðum miðbæinn betur; kíktum inn í nokkrar (túrista)búðir og þar sem við erum öll farin að hugsa (pínulítið) heim keyptum við flest einhverjar gjafir/nammi handa fjölskyldunni. Flottasta búðin var samt Sama-búðin; þar var hægt að kaupa hreindýrahorn, uppskriftarbækur, Kofta (þjóðbúning Sama) og alls konar fínerí.

En loksins kom svo að því að við fengum að fara í verslunarmiðstöðina Jekta Storsenter. Það var gaman að rölta þar um og skoða mannlífið og tíminn leið allt of hratt því kl. 17:30 átti lokapartýið með norska hópnum að hefjast og við vildum öll mæta á réttum tíma.

Partýið var haldið í Tromsø Villmarkssenter, með um 100 Husky hundum (þeir voru bundnir og vel þjálfaðir, engar áhyggjur. Heimtur beggja hópa eftir kvöldið voru 100%). Við grilluðum hamborgara og fengum að klappa hundunum og leika við þá. Þeir eru svo sætir og blíðir!!!
Við átum hamborgarana inni í stóru Gamma; kringlóttu húsi með eldstæði í miðjunni, borðum og bekkjum upp við veggi. Þetta var svo koseligt og bra! Norsku krakkarnir voru yfir sig spenntir að fá hamborgara úr kjöti því skólinn þeirra býður ávallt eingöngu upp á grænmetisfæði.

Við, íslenski hópurinn, vorum öll í fínu peysunum sem við fengum fyrir ferðina og við fengum norsku krakkana til að skrifa nöfnin sín og skemmtilegar kveðjur á þær. Þetta var svo geggjuð hugmynd og svo skemmtilegt að gera þetta. Núna eru peysurnar okkar yfirfullar af persónulegum minningum og tengslum og okkur þykir svo enn meira vænt um þær en áður. Hvenær sem við söknum nýju norsku vina okkar getum við klætt okkur í peysurnar og minnst þeirra allra.

Það gekk svo lygilega vel að koma öllum í bólið snemma. Okkur langaði alveg að vaka lengur og hafa smá partý, en við vorum orðin svo svakalega þreytt og vissum líka að við yrðum að rísa á fætur snemma.

Dagur 8, heimferðin

Við þurftum að vakna 04:00 (ókei, 04:00 á íslenskum tíma… 06:00 á norskum – en okkur fannst þetta svooo snemmt!) Við kláruðum að pakka, borða og græja okkur og brunuðum svo út á flugvöll. Við höfðum áætlað að skila bílnum kl. 9:00 og vorum 3 mínútum á undan áætlun. Hver segir að Íslendingar séu alltaf seinir? Það sama var ekki hægt að segja um flugfélögin…

Vegna snjókomu í Osló var töf á öllum flugum þangað og þaðan. Við fengum mjög misvísandi skilaboð og misstum næstum af fluginu okkar frá Tromsø því nýjustu upplýsingar sögðu að það færi 2 tímum seinna . Fyrir rælni rákum við augun í flugnúmerið okkar við hlið svo við spruttum þangað og um borð. Flugið gekk vel og útsýnið var ægifagurt; snævi þakin fjöll, heiður himinn og hvít ský.

Í Osló höfðum við 35 mínútur til að skipta um vél svo VIÐ HLUPUM!

Við náðum Icelandair-vélinni, hölluðum okkur aftur, klöppuðum við lendingu og fylltumst þakklæti og hlýju þegar flugstjórinn bauð okkur velkomin heim.

Það var geggjað að komast heim; knúsa mömmu og pabba og borða svo allt norska nammið sem við keyptum til að deila með fjölskyldunni. Við (eða allavegana þau okkar sem eru ekki að útskrifast núna í vor) bíðum svo spennt eftir að fá norska hópinn í heimsókn vorið 2024.

Takk fyrir að fylgjast með okkur á ferðalaginu! Takk fyrir fallegar hugsanir, bænir, fjárstyrki og annan stuðning. Takk fyrir að trúa á þetta verkefni og njóta þess með okkur með lestri þínum.

 

Kær kveðja, Noregsfarar Suðurhlíðarskóla vorið 2023