Íþróttadagurinn

Við tökum vordögum sérstaklega hátíðlega hér í skólanum og reynum að verja góðum hluta tíma okkar úti við. Við höfum gefist upp á að bíða eftir góða veðrinu og vorinu og fögnum rigningunni og rokinu svo lengi sem það heldur sig í hófi.

Við héldum því íþróttadaginn okkar hátíðlegan eins og ávallt. Í þetta skiptið fengu krakkarnir þrennt að velja um: Hjólaferð, gönguferð um Fossvoginn og fjallgöngu á Úlfarsfell.

Krakkarnir í skólanum eru auðvitað alls konar hetjur og það gladdi okkur mjög að sjá að um helmingur þeirra valdi mest krefjandi ferðina – Fjallgönguna á Úlfarsfell.  Flest þeirra tóku tvo toppa en einhverjir ofurhugar skottuðust einnig upp á þann þriðja án þess að blása úr nös.

Hjólagarparnir komu við í Elliðaánum hvar þeir freistuðust til að dýfa tánum vel ofan í ískalda ána, léku sér á nýja leikvellinum við rafstöðina og komu við á hoppubelg. Allir sneru heim með allar tær á sínum stað og bros á vör.

Þeir sem vildu verja sem mestum tíma í frjálsan leik völdu að fara í gönguferð um Fossvogsdalinn og njóta leiktækjanna sem þar eru í boði. Himinsæl skoppuðu þau á hoppubelgjunum, klifruðu í klifurgrindum og léku sér í grasinu.

Þegar við komum heim beið okkar rjúkandi heitt kakó sem Marcia og Helga Magnea höfðu hellt upp á. Það sló alveg í gegn og hjálpaði okkur að ná aftur yl í kroppinn eftir ævintýrin.

Við erum öll alsæl eftir frábæran og vel heppnaðan dag!