Um skólann

1920x1080_SHS_forsidumynd_2

Um Suðurhlíðarskóla

Hvar?
Suðurhlíðarskóli er lítill skóli í hjarta Reykjavíkur, staðsettur við fjöruna í Fossvoginum, skammt frá Nauthólsvík og Öskjuhlíð. Hér er pláss fyrir 60-80 nemendur í 1.-10. bekk. Áherslur
Í Suðurhlíðarskóla leggjum við áherslu á þátttöku, frumkvæði og ábyrgð nemenda. Í því felst m.a. að nemendur taka þátt í að gera áætlanir um nám sitt og leysa mörg fjölþætt og skapandi verkefni upp á eigin spýtur eða í samstarfi við aðra. Þeir fá mörg tækifæri til að gera eigin kannanir og rannsaka ýmis viðfangsefni sem tengjast áhugasviði eða áformum hvers og eins.

Við leggjum áherslu á að mörg viðfangsefni tengist samfélaginu utan skólans og leysa nemendur á hverju ári verkefni sem felast í þjónustu við aðra, t.d. með framlagi til hjálparstarfs, umhverfisverndar­verkefna, átaksverkefna, taki þátt í starfi með öldruðum eða vinni að nýsköpun. Í Suðurhlíðarskóla vinnum við með heilsueflingu, útinám og umhverfismennt þar sem virðing fyrir lífi og náttúru er sett á oddinn.

Kristinn skóli
Síðast, en ekki síst, er Suðurhlíðarskóli skóli sem setur kristin gildi í öndvegi. Í því felst m.a. að kristnum fræðum og trúarbragðafræðslu er gert hátt undir höfði og í allri umgengni og samskiptum eru nemendur og starfsmenn hvattir til að sýna hver öðrum virðingu, umburðarlyndi og kærleika.

 

Saga skólans

Suðurhlíðarskóli hóf starf í nýrri skólabyggingu að Suðurhlíð 36 árið 1990 og er einn af 7.804 skólum sem Aðventistar starfrækja víða um heim. Þetta skólanet er það næst stærsta í heiminum, á eftir kaþólskum skólum.
Í byrjun 20. aldar hófu Aðventistar rekstur barnaskóla í Reykjavík af mikilli framsækni. Lengst af var skólinn starfræktur í hliðarbyggingu Aðventkirkjunnar að Ingólfsstræti 19, en frá árinu 1976 og þar til nýtt húsnæði var tekið í notkun við Suðurhlíð, var barnaskóli Aðventista starfræktur í Skerjafirði.

Fjórir skólastjórar hafa leitt starfið frá því hann fluttist í Suðurhlíðina: Jón Karlsson árin 1990-2005, Steinunn H. Theodórsdóttir árin 2005-2008, Frode F. Jakobsen árin 2008-2019, Lilja Ármannsdóttir frá haustinu 2019-2024, Steinunn H. Theodórsdóttir 2024 

Skólinn er rekinn af Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi, þú getur kynnt þér hana nánar hér: http://adventistar.is

Stjórnendur skólans

Steinunn Hulda Theodórsdóttir

Skólastjóri

steinunn@sudurhlidarskoli.is

Helga Magnea Þorbjarnardóttir
Deildarstjóri stoðþjónustu

helga@sudurhlidarskoli.is