Spil & Spakk

Loksins!
Covid-takmarkanir eru hættar að hrella okkur og við fögnuðum því heldur betur í gærkvöldi á Spil og Spakk kvöldi foreldrafélagsins. Það var svo gaman að hittast, spila saman, borða saman og eiga samfélag. Krökkunum fannst þetta æðislegt, foreldrunum fannst þetta æðislegt og starfsfólkinu fannst þetta æðislegt. Hvað meira er hægt að biðja um?
Í Suðurhlíðarskóla höfum við ávallt lagt mikla áherslu á gott og traust samstarf foreldra og starfsfólks. Á kvöldum sem þessum náum við einmitt að hlúa svo vel að því samstarfi. Við kynnumst betur, spjöllum um daginn og veginn, hlæjum saman og föllum frá hinum almennu hlutverkum okkar – við erum öll bara við sjálf.
Foreldrafélagið lætur ekki staðar numið eftir þetta eina kvöld og er búið að skipuleggja Spil og Spakk aftur fimmtudagskvöldið 28. apríl og fimmtudagskvöldið 19. maí. Það er um að gera að taka þessi kvöld frá strax.