Unglingastigið á ferðalagi um landið með norskum vinum

Undanfarna viku hafa vinir okkar úr Ekrehagen skole, Tromsö í Noregi, dvalið í heimsókn hjá okkur; 17 nemendur og 7 fullorðnir.
Við ferðuðumst vítt og breitt um Suðvesturhornið; fórum Gullna hringinn, til Vestmannaeyja, í Borgarnes og Reykholt.
Við gistum saman í 2 nætur í safnaðarheimili kirkju sjöunda dags aðventista í Vestmannaeyjum, hvar vindurinn blés hressilega allan tímann og kuldinn stóð við frostmark. Flestir voru þó vel búnir og þeir hörðustu þrömmuðu á topp Eldfells í fullum mótvindi og fimbulkulda. Sumir urðu grænir af sjóveiki um borð í Herjólfi, en allir héldu þó haus. Við sluppum blessunarlega við alla rigningu á þessari ferð, borðuðum góðan mat og nutum samvista við hvert annað.
Við gerðum svo margt fræðandi og skemmtilegt saman. Við skoðuðum m.a. Lava Museum á Hvolsvelli, Eldheima í Eyjum, Landnámssetrið í Borgarnesi, Snorrastofu í Reykholti, miðbæ Reykjavíkur – af jörðu og úr turni Hallgrímskirkju, Hellisheiðarvirkjun, Almannagjá, Öxarárfoss og Hraunfossa. Við prófuðum margar sundlaugar og versluðum smá í Kringlunni. Toppurinn var þó að flestra mati ævintýraleg heimsókn okkar í Raufarhólshelli! Hann er ísi lagður um þessar mundir og þó flestir Íslendinganna í hópnum hefðu skoðað hann áður, vorum við öll gapandi yfir fegurðinni!
Samstarfið við Ekrehagen hefur sett gríðarlegan svip á unglingadeildina frá því við hófum að vinna saman árið 2014, og heimsóknir þeirra til okkar og okkar til þeirra marka hápunktinn á hverjum vetri. Við erum því alveg svakalega ánægð með að þær séu komnar á aftur, eftir 2 heimsóknarlaus Covid-ár.
Á næsta ári höldum við svo; 9. og 10. bekkur, til Tromsö! Við erum svo spennt.
Við kennararnir tókum allt of fáar myndir, en hér eru nokkrar sem við viljum deila með ykkur, til að gefa ykkur smá innsýn inn í ferðalagið.