Íþróttadagur og úti-náttúrufræði í vinnustofum

Með hækkandi hitastigi og þéttari sólargeislum (kannski smá skýjum líka…) getum við ekki á okkur setið að eyða sem mestum tíma úti. Við finnum það svo greinilega núna hvað það var sem við söknuðum mest í Covid – að geta verið öll saman úti og leikið okkur. Það er enginn áhyggjufullur lengur þó hann snerti sama bolta og annar eða klukki andstæðing úr annarri stofu í fánaleiknum.
Bæði starfsfólk og nemendur geisluðu af gleði á íþróttadeginum okkar í gær, meðan þeir fylltu á D-vítamínbirgðirnar og teygðu hlaupapúlsinn langt upp fyrir venjuleg hvíldarmörk. Engin miskunn var sýnd í kappsfullum leikjum milli hópa og þátttakendur lögðu allt í sölurnar fyrir sigur.
Eftir svona dag fer enginn heim og bíður eftir sumarfríinu, heldur bíða allir spenntir eftir ævintýrum næstu skóladaga. Af nógu er að taka, því framundan eru útikennsludagar og vordagar og þeir eru hlaðnir alls konar spennandi verkefnum.
Í Suðurhlíðarskóla höfum við ávallt lagt mikla áherslu á að nýta náttúrna í kringum skólann; skóginn, hafið, fjöruna og skólalóðina. Oft er það barningur að finna tíma í allt sem við viljum gera mitt í önnum skólabókanna, svo við skipulögðum vinnustofurnar þessa vikuna í útikennslu. Þar búum við til báta úr greinum og laufblöðum, bökum kökur í appelsínuberki á útieldstæðinu okkar, hlúum að skóginum okkar og sáum/plöntum í matjurtagarðinn okkar.