Fyrsta vikan – sáttmálagerð

Nýja skólaárið hér í Suðurhlíðarskóla hefur runnið heldur ljúft af stað þessa fyrstu daga. Kennarar allra hópa hafa lagt áherslu á að vinna með þarfirnar og hver bekkur hefur valið gildin sem eiga að einkenna bekkjarandann þeirra í vetur. Nokkrir hópar hafa þegar lagt lokahönd á bekkjarsáttmálann en aðrir hópar nýta næstu daga til að klára.

Öll þessi vinna er öll hluti af Uppbyggingarstefnunni (restitution), uppbyggingu sjálfsaga, sem skólinn starfar samkvæmt. Samkvæmt henni höfum við öll 5 grunnþarfir (öryggi, gleði, hafa áhrif, frelsi og tilheyra) sem móta okkur sem einstaklinga og skýra hegðun okkar og gjörðir. Það er mikilvægt að við þekkjum þessar þarfir og gerum okkur grein fyrir hverjar séu ríkjandi í okkar fari og hvernig við uppfyllum þær á jákvæðan hátt.

Gerð bekkjarsáttmála er einnig hluti af verkefnum Uppbyggingarstefnunnar. Nemendur kjósa 3-4 gildi á lýðræðislegan hátt og skrifa svo allir undir að gera sitt besta við að framfylgja þeim.  Útfærsla og gerð sáttmálanna sjálfra er alfarið í höndum nemendanna sjálfra og okkur finnst alltaf jafn gaman að sjá hversu skapandi krakkarnir geta verið. Hér var teiknað, litað, límt, saumað, smíðað og allskonar. Vinnan var skemmtileg og engin vandamál – bara lausnir.