Orð í verki – ADRA söfnun fyrir Eþíópíu og Úkraínu kl. 18-20 miðvikudaginn 21.9.2022

Suðurhlíðarskóli leggur ríka áherslu á samfélagsþjónustunám og á hverjum vetri tökum við þátt í 3 stórum verkefnum með það að markmiði að láta gott af okkur leiða. Það er okkur svo mikilvægt að allir átti sig á að þeir geta hjálpað – og margt smátt getur gert kraftaverk.

Fyrsta samfélagsþjónustuverkefnið stendur yfir þessa dagana, en það er söfnun á vegum ADRA. ADRA stendur fyrir Adventist Development and Relief Agency og er hjálparstarf á vegum Kirkju sjöunda dags aðventista um allan heim. Megináhersla ADRA er á byggingu skólahúsnæðis á fátækum svæðum heimsins, þjálfun kennara og dreifingu upplýsinga til foreldra um mikilvægi menntunar. 

Til að styðja við ADRA bregðum við okkur ávallt af bæ einn dag að hausti, sleppum skólabókum og göngum í hús með söfnunarbauka. Foreldrar og systkini slást jafnvel í hópinn og allir njóta þess að taka þátt. 

Í ár beinir ADRA kastljósinu að Eþíópíu og Úkraínu. Við þekkjum öll neyðina sem ríkir vegna stríðsins í Úkraínu og flest höfum við heyrt fréttir af bágu ástandinu í Eþíópíu frá unga aldri. Áskoranir þessara tveggja landa eru mjög ólíkar og verkefnin mörg og fjölbreytt. 

Í skólanum höfum við kynnt okkur þessi tvö lönd síðastliðna daga og á morgun hefst söfnunin sjálf. 

Nemendur mæta í skólann kl. 17:00 og leggja af stað í söfnunina kl. 18:00. Þeir fara 2-4 saman í hóp og ávallt einn fullorðinn með, til taks ef á þarf að halda.

Ef krakkarnir koma og banka hjá þér biðjum við þig um að taka þeim vel – með brosi og hlýju. Ef þú átt klink (eða jafnvel meira) sem þú getur látið af hendi rakna, máttu vera viss um að það mun blessa og gleðja þar sem þess er þörf.