Vel heppnuð ferð á Hlíðardalsskóla

Nemendur og starfsfólk 5.-10. bekkjar hoppaði upp í rútu á miðvikudagsmorgun og renndur í hlaðið á Hlíðardalsskóla. Þar áttum við saman virkilega ánægjulegar stundir í alls kyns hópefli, leikjum, sprelli og spjalli fram yfir hádegi á fimmtudag.
Krakkarnir lærðu nýjan borðsálm og nýja borðsiði (bíða eftir að röðin kemur að þeim að fara í röð og bíða eftir að matartímanum sé lokið áður en þau fara frá borðum), léku nýja leiki, sáu nýja staði, gengu nýjar slóðir, sumir eignuðust nýja vini og aðrir sköpuðu nýjar tengingar við gamla vini.
Það er svo magnað að fylgjast með hvað einn sólarhringur getur breytt miklu og bætt þegar unnið er með hópa. Fyrir suma var það mikil áskorun að gista fjarri foreldrum og fyrir aðra var helsta áskorunin að fara í gönguferð í rigningu. Sigrar sem þessir gera okkur alltaf stærri og meiri; efla sjálfstæði og sjálfstrú og víkka heimsmyndina jafnvel um nokkrar gráður.
Við erum blessuð að hafa aðgengi að Hlíðardalsskóla og þökkum fyrir okkur að sinni.
Þangað til næst!