Orð í verki – Jól í skókassa

Nú á dögunum var Jól í skókassa, verkefni á vegum KFUM&K, áberandi í fréttum og samfélaginu sjálfu. Við í Suðurhlíðarskóla höfum tekið virkan þátt í því undanfarin ár og má með sanni segja að það hafi vaxið og dafnað með auknum nemendafjölda, enda gefur þetta verkefni okkur mikið til baka og slær svo góðan og fallegan tón við upphaf alls jólaundirbúnings í skólanum.

Foreldrar skólans stóðu sína vakt með börnunum sem aldrei fyrr og birgðu okkur vel upp af ritföngum, sælgæti og snyrtivörum, fóru í gegnum gömul leikföng og föt og útveguðu skókassa. Kennarar skólans létu sitt ekki eftir liggja og fylltu inn í þar sem vantaði. Niðustaðan var því stærri og veglegri ,,verslun” en við höfum áður sett upp og því gátum við klárað fleiri kassa en nokkurn tímann áður – 48 talsins!  Þegar samtakamátturinn er virkjaður verður niðurstaðan ávallt framúrskarandi og við nutum þess með sanni núna.

Fyrirkomulagið við skókassagerðina hjá okkur er þannig að við pörum saman nemendur, 2 og 2, á mismunandi aldri, og þeir vinna einn skókassa saman. Þeir sem ná mjög góðri leikni í að pakka inn geta oft náð öðrum kassa ef næg aðföng eru til staðar – og jafnvel þeim þriðja. Kennarar skólans hafa svo stillt öllum vörunum upp eftir flokkum, krakkarnir fá miða með aldri þess barns sem þau eiga að útbúa kassa fyrir og svo velja þau vörur úr öllum flokkum þar til kassinn er fullur. Afgangs vörur (bangsar og flíkur sem eru of stór til að passa í kassana, ungbarnaföt og fleira sem af gengur) setjum við svo í poka og skilum inn með skókössunum. Við vitum að allt nýtist þetta og verður dreift til þeirra sem þurfa.

Það er svo fallegt að sjá metnaðinn sem börnin leggja í sína kassa. Þau velja hvern hlut af mikilli kostgæfni og flest reyna að troða aðeins fleiri hlutum í kassann en komast fyrir og endurraða jafnvel nokkrum sinnum til að nýta örugglega plássið sem best.

Það skiptir okkur í Suðurhlíðarskóla höfuðmáli að þeir nemendur sem til okkar koma bæti ekki eingöngu við sig almennri þekkingu og færni í námi, heldur nái að greina sig sjálf sem hluta af samfélaginu og læri að þekkja leiðir til að taka þátt og gefa af sér. Við erum því ólýsanlega þakklát fyrir verkefnið Jól í skókassa, því þó tilgangurinn sé vissulega að gleðja börnin í Úkraínu, þá gefur þáttakan okkur svo dýrmætt tækifæri til að efla okkar eigin nemendur, auka samkennd þeirra og hlýju og þátttöku í samfélaginu.

Í ár bárust samtals 5.575 gjafir í Jól í skókassa og nú hefur þeim öllum verið komið í gám sem verður sendur til Úkraínu á næstu dögum. Við biðjum Guð að vaka yfir sendingunni og tryggja að hún komist alla leið. Við biðjum fyrir viðtakendum gjafanna og Úkraínsku þjóðinni allri. Við þökkum fyrir að fá að gefa örlítið brot af okkar velsæld og bíðum auðmjúk og spennt eftir að fá að taka aftur þátt að ári.

Fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur verkefnið Jól í skókassa betur má lesa um það hér: https://www.kfum.is/skokassar/skokassar/ og hér: https://www.facebook.com/skokassar/