7. bekkur skólans í 3. sæti stuttmyndasamkeppni Sexunnar

Þau gleðitíðindi bárust okkur í gær að 7. bekkur skólans hefði hreppt 3. sætið í stuttmyndasamkeppni Sexunnar með kvikmynd sinni Tælingu.

Stuttmyndasamkeppnin er fyrir nemendur í 7. bekk á öllu landinu og er samstarfsverkefni fjölmargra aðila. Þema keppninnar er stafrænt ofbeldi og í gegnum myndirnar sýna nemendur hvað stafrænt ofbeldi er, hversu slæmt það er og hvernig hægt er að vinna gegn því. Þeirra sýn og þeirra raddir fá að njóta sín. Þrjár bestu myndirnar eru verðlaunaðar, sýndar á UngRÚV og verða einnig sendar sem hluti af fræðsluefni um stafrænt ofbeldi í alla skóla landsins.

Til okkar mættu tvær lögreglukonur í fullum skrúða sem færðu bekknum þessi gleðitíðindi. Þær hrósuðu hópnum fyrir frábæra mynd og höfðu orð á hversu vönduð hún væri; hversu skýrt sagan hefði komist til skila án margra orða, hversu góður leikurinn hefði verið og hve einstaklega listræn skotin og klippingin væru.

Kvikmyndin verður til sýninga hjá UngRÚV innan skamms.

Starfsmaður skólans tók 4 nemendur hópsins í stutt viðtal:

Hvaða keppni var þetta sem þið tókuð þátt í?

Eitthvað sem heitir Sexan og er hjá ríkislögreglustjóra og ríkinu sjálfu – til þess að sýna fólki um einelti og neteinelti sem er að gerast í dag.

Það voru skólar út um allt Ísland sem voru að senda inn 1-3 myndir hver.

Segið mér aðeins frá kvikmyndinni ykkar:

Við bjuggum til mynd sem heitir ,,Tæling”, sem er um stelpu sem lenti í netofbeldi og svo voru vinir hennar að hjálpa henni – segja henni að segja foreldrunum frá og þannig.

Við erum ótrúlega spennt að sjá þetta á Rúv. Við fengum mjög stuttan tíma til að gera þetta og notuðum þá marga tíma í þetta. Þetta hefði alveg getað verið aðeins betra, við hefðum getað lagað sumar senurnar og söguþráðurinn var soldið lítill. En það hjálpaði okkur dótið sem Karel var með (kvikmyndagræjur).

Tóku allir í bekknum þátt í kvikmyndinni?

Það voru eiginlega allir til í að taka þátt í að gera þessa mynd og allir í bekknum voru með hlutverk. Okkur fannst öllum mikilvægt að sem flestir væru með, en það var engin skylda. 

Hvað var erfiðast við að búa þessa kvikmynd til?

Erfiðasti parturinn var að byrja að finna hugmyndina. Við notuðum alveg helminginn af tímanum í að búa til handritið. Við vissum að til að eiga séns gætum við bara gert eina mynd og við þurftum að hugsa að hún mætti bara vera í 3 mínútur, svo við urðum að stytta þetta svolítið og gátum ekki sett allar senurnar inn.

Út af því það eru bara 4 aðalleikarar finnst mér við hafa staðið okkur ótrúlega vel – og þetta heppnaðist rosalega vel.

Tónlistin passaði alveg perfectly. Við vorum mjög ánægð með það. Við vorum reyndar búin að gera annað intro-auto en gerðum það á imovie en notuðum eitthvað professional klippiforrit í myndina (Adobe Premiere Pro) og gátum þá ekki notað þetta úr imovie. En það var allt í lagi því það var hvort eð er of langt.

Langar ykkur til að búa til fleiri kvikmyndir í framtíðinni?

Þetta var soldið erfitt verkefni og tók langan tíma en það væri gaman að gera þetta aftur. 

Það var gaman að sjá nemendur vera góðir í verkefnum sem við vissum ekki áður að þeir væru góðir í.

Það myndu örugglega flestir vilja gera kvikmynd aftur ef einhver annar myndi gera handritið.