Chrome-tölvur komnar í hús

Mikil gleðisending barst okkur í síðustu viku; 25 stk Chrome-tölvur! Þær munu án efa hafa mikil áhrif á skólastarfið, sérstaklega á unglinastigi þar sem þær verða hvað helst notaðar.
Við höfum lengi viljað bæta tækjakost skólans, því þó tölvurnar í tölvustofunni okkar séu góðar þá eru þær ekki nógu margar fyrir heilan bekk. Rýmið í tölvustofunni er fullnýtt svo ekki er unnt að bæta við þar.
Við eigum nokkrar spjaldtölvur sem gagnast afar vel í ákveðnum greinum, eins og kvikmyndagerð, en þær henta afskaplega illa fyrir Google-umhverfið sem við notumst mikið við á unglingastigi. Chrome-tölvurnar eru því akkúrat það sem okkur vantaði!
Svona kaup kosta skildinginn og eru stór biti fyrir lítinn skóla. Af auðmýkt og þakklæti höfum við enn einu sinni verið blessuð, en 5 af þessum 25 tölvum eru gjafir frá velunnurum skólans. Einnig tóku tveir velunnarar það að sér að finna réttu tölvurnar, fá góð tilboð og ganga frá kaupunum fyrir okkur. Sú vinna kostaði margar klukkustundir og ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið að legga slíkt af mörkum án endurgjalds.
Okkur þykir óskaplega vænt um það þegar fólk og fyrirtæki taka sig saman og styðja við bakið á okkur og draga okkur áfram. Það er svo dýrmætt að finna fleiri leggjast á árarnar við að gera skólann okkar betri og við biðjum Guð að blessa ríkulega alla sem taka þar þátt.
Við vonum svo að tölvurnar verði skólastarfinu öllu til blessunar og bæti námsumhverfi nemendanna tilfinnanlega.
Mikil ánægja á meðal unglinganna með nýju Chrome-tölvurnar og ljóst að þær færa nýja námsgleði inn í hópinn – sem er kærkomin í þessum dimma og kalda janúarmánuði.