Bolludagur og öskudagur

Við í Suðurhlíðarskóla elskum bollur og búninga! Við fögnuðum því líðandi viku eins og sæmir, með rjómabollum og sprelli.

Sú hefð skapaðist fyrir nokkrum árum að unglingar skólans baki vatnsdeigsbollur fyrir allan skólann á bolludag og bjóði upp á þær með rjóma eða sulturjóma. Unglingarnir í ár stóðu forverum sínum ekki aftar á neinn hátt og enduðu á að baka um 100 glæsilegar bollur, sem allar runnu ljúflega niður beint á eftir fiskibollunum og karrýsósunni (Kósýkot og Félagsmiðstöðin fengu að klára afganginn).

 

 

Á öskudag skelltu kennarar skólans í öskudags-kahoot og blöðruleik áður en kötturinn var sleginn úr tunnunni. Dagskráin endaði svo á soðnum pylsum í hádeginu, við mikinn fögnuð. Allflestir nemendur mættu uppáklæddir að öskudags sið, sem og allt starfsfólk skólans.