Uppáhalds dagur margra

Ef þið eruð ekki sannfærð nú þegar um að Suðurhlíðarskóli hafi allt að bera sem maður getur óskað sér í skóla, þá er best að þið fáið að vita aðeins um uppáhalds dag margra nemenda okkar. Daginn sem margir bíða eftir allan veturinn – og við höfum verið svo lánsöm að fá að endurtaka hann á hverju vori í hátt í áratug.
Ég er að sjálfsögðu að tala um daginn sem við heimsækjum Siglingaklúbbinn Ými!
Þvílík forréttindi það eru að fá að koma með alla krakkana í heimsókn og fá að bjóða þeim upp á að sigla á kajak, árabát, mótorbát eða lítilli seglskútu. Gleðin er tryllt – jafnvel þó það hafi rignt á okkur í allan dag, okkur er alveg sama.
Þeir hörðustu leika sér að því að hoppa út í sjó (eða velta bátnum sínum…) og svo má kæla sig í heita pottinum (fiskikarinu) áður en farið er í sturtu og skipt um föt. Það má svamla og skvetta, fara í kapp, búa til öldur og hvaðeina sem manni dettur í hug. Það má líka róa bara út í voginn og njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar.
Eini gallinn er bara sá að svona dagar líða allt of fljótt, en við erum strax farin að telja niður í heimsóknina á næsta ári.
Við þökkum vinum okkar og velunnurum í Siglingaklúbbnum Ými frá okkar dýpstu hjartarótum. Við erum svo sannarlega glöð yfir þessum frábæru tengslum sem hafa myndast okkar á milli undanfarin ár og vonum að þau styrkist bara og eflist á komandi árum.