Jólatréð á torginu

Nokkrar stúlkur af unglingastigi tóku það að sér á jólaskreytingardaginn mikla nú á mánudaginn að skreyta jólatré skólans. Það er svo fallegt hjá þeim og yljar okkur svo sannarlega um hjartarætur þegar við mætum í skólann á morgnana – jafnvel pínulítið blaut og hrakin undan þessu skringilega nóvemberveðri sem hefur ruglað okkur í ríminu undanfarnar vikur.
En jólatréð gegnir öðru, stærra og göfugra hlutverki en bara gleðja jólahjörtun okkar. Undir trénu erum við nefninlega að safna matvælum sem við gefum svo í Alfa, líknarfélag Aðventkirkjunnar. Söfnunin mun standa yfir til föstudagsins 13. desember og öllum er frjálst að koma með matgjafir (sem hafa ágætis geymsluþol) og setja undir tréð (ekki kælivöru). Matnum verður svo komið áfram til þeirra sem þurfa hans með fyrir jólin.
Líknarfélagið Alfa hefur í áratugaraðir unnið ötullega að því að styðja við þá sem minna mega sín í samfélaginu með fjárhagsaðstoð fyrir jólin. í fyrra gáfu þau t.a.m. 214 heimilum Bónuskort, að andvirði samtals 5,2 milljónir.
Við erum stolt af að vera skóli sem leggur mikið upp úr aðstoð við náungann og við trúum því að samhyggðin geri okkur betri. Við viljum því bjóða hverjum þeim sem vill taka þátt í þessu verkefni með okkur og styðja við hið góða starf Alfa þessi jólin – annað hvort með því að leggja matvæli undir tréð eða leggja inn á líknarfélagið:
Reikningur: 0327-26-1948,
kt. 651114-0120