Undirbúningur Kirkjujóla og jólamatur á torginu

Í desember snúast vinnustofur skólans alfarið um Kirkjujól, sem eru haldin hátíðleg síðasta skóladag fyrir jólafrí í Aðventkirkjunni Ingólfsstræti.

Kirkjujól eru einn af hápunktum hvers vetrar og við leggjum mikið upp úr því að þau séu stund nemendanna. Allir sem þess óska fá tækifæri til að stíga á stokk og okkur er mikið í mun að sem flestir láti ljós sitt skína á einn eða annan hátt. Sumir skína best á bak við tjöldin og þann þátt má svo sannarlega ekki vanmeta, því til að skapa rétta upplifun verður undirbúningurinn að vera vandaður.

Við viljum alls ekki sýna ykkur of mikið áður en kemur að Kirkjujólum sjálfum, en gátum ekki stillt okkur um að deila með ykkur örfáum myndum frá leikmyndagerðinni – bara til að gefa ykkur smá innsýn inn í metnaðinn.

Einnig fá að fljóta með myndir frá jólamatnum sem Kristjana bauð upp á í hádeginu í gær. Við fengum hangikjöt (hangi-vegan fyrir þá sem ekki vildu kjöt), kartöflur, uppstúf, eplasalat, laufabrauð, jólaöl og allt annað sem máltíðinni tilheyrir. Hlaðborðið var skreytt jóladúk og rafmagnskertum og á torginu hljómuðu jólalög undir borðhaldinu. Við átum flest á okkur gat og nutum þess svo sannarlega að eiga svona hátíðlegan fimmtudag.