Vordagar 2020

Síðustu viku skólaársins nýtum við jafnan til útiveru, samvista og leikja. Okkur finnst mikilvægt að kveðja skólaárið með stæl og skapa góðar minningar áður en sumarleyfið brestur á.

Sú hefð hefur skapast að eyða einum vordegi í Siglingaklúbbnum Ými. Þar fáum við að sigla á árabátum, kajökum, seglskútu og jafnvel spíttbát. Þeir allra hörðustu toppa heimsóknina með því að hoppa út í sjó af bryggjunni og ylja sér svo í heita pottinum/fiskikarinu.

Vorferðin okkar er sameiginleg ferð allra hópa skólans og í ár fórum við með rútu á Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Við hófum heimsóknina á að gróðursetja tré í hlíðinni fyrir ofan skólann, svo fórum við í leiki, grilluðum hamborgara og áttum góðar stundir saman. Yngri nemendur fóru aftur í bæinn seinnipartinn en unglingarnir gistu á Hlíðó. Veðrið var gott og gleðin allsráðandi.