Þátttaka í hjálparstarfi, samfélagsþjónusta

Eitt af gildum Suðurhlíðarskóla er þjónusta. Orðið er víðtækt og stendur bæði fyrir þjónustuna sem við viljum veita nemendum okkar en einnig þá þjónustu sem við getum veitt út í samfélagið. Í Biblíunni er mikið talað um þjónustu og þá sérstaklega gagnvart þeim sem minna mega sín.

Við erum svo lánsöm að fá á hverju ári að taka þátt í ADRA, sem er hjálparstarf Aðventkirkjunnar. Á hverju hausti beinir ADRA sjónum sínum að ákveðnu landi/svæði sem er hjálpar þurfi og reynir að leggja eitthvað af mörkum til aðstoðar gegn þeirri neyð sem þar ríkir.

Í ár er athyglin á Suður-Súdan, einu fátækasta ríki heims. Þar hefur geisað borgarastyrjöld (með hléum) frá árinu 2013, sem hefur kostað yfir 400.000 mannslíf. Auk þess hafa milljónir manna hafa misst heimili sín og viðurværi og í kjölfarið neyðst til að flýja til nærliggjandi landa. Í febrúar 2020 var undirritaður friðarsamningur milli stríðandi fylkinga í landinu og við vonum að sá friður haldist, en landið sjálft er í sárum og þarfnast aðstoðar við uppbyggingu.

Í Suður-Súdan er lélegt aðgengi að hreinu vatni og sápu, stúlkur eru ungar seldar í hjónaband (15 ára er algengur aldur) og menntun barna stendur verulega höllum fæti.  Eftir að Covid-19 skall á hafa lífskjör barnanna versnað hratt. Skólum hefur verið lokað og fræðslan því í höndum ólærðra foreldra. Það er gríðarlega stórt verkefni að fræða foreldra og mennta þá svo þeir geti stutt við nám barna sinna og gert sér grein fyrir mikilvægi menntunnar. Einnig er mikil vöntun á faglærðum kennurum í landinu, en innan við 30% kennara hafa lokið kennaramenntun. Það er því verulega brýnt að mennta fleiri til starfa.

Peningurinn sem við söfnum hér á Íslandi fer í að styðja við skóla og menntunarstarf í Suður Súdan. Við trúum því að Guð blessi þær krónur sem við söfnum og við erum þakklát fyrir tækifærið sem ADRA veitir okkur, að fá að sýna samhug og stuðning þeim sem við þekkjum ekkert, í landi sem við fæst vissum nánast ekkert um áður.

Til að afla fjár höfum við vanalega gengið í hús með söfnunarbauka og óskað eftir fjárframlögum. Í ár var það ekki hægt sökum Covid-19 svo við urðum að finna aðrar leiðir.
Allir nemendur skólans hafa tekið þátt í að safna dósum – af heimilum sínum, frá stórfjölskyldu og vinum. Einnig opnuðu yngstu nemendurnir verslun í einni skólastofunni, sem svo þróaðist yfir í netverslun á facebook síðu skólans https://www.facebook.com/sudurhlidarskoli þar sem þau selja leikföng, föt og ýmsar gersemar til að afla fjár.

Það er okkur óendanlega mikils virði að finna samhyggðina og hlýjuna sem krakkarnir senda börnunum í Suður Súdan, fórnirnar sem þau eru tilbúin að færa (leikföngin sín og aðra muni) og kærleikann sem þau bera til þeirra, þrátt fyrir að þekkja þau ekki neitt. Manngæskan er mikilvægur kostur og það að fá að taka þátt í að kenna börnunum að maður getur hjálpað er okkur í Suðurhlíðarskóla ómetanlegt.

Söfnunin stendur enn yfir. Allir geta tekið þátt með því að leggja inn á reikning 0101-05-207272, kt. 440169-3259. Einnig getið þið kíkt á facebook síðu skólans https://www.facebook.com/sudurhlidarskoli og athugað hvort eitthvað leynist í versluninni sem ykkur gæti hugnast.