Jól í skókassa 2020
Líkt og fyrri ár tók Suðurhlíðarskóli þátt í verkefninu Jól í skókassa. Jól í skókassa er verkefni á vegum KFUM&KFUK sem gengur út á að fá fólk til að útbúa jólagjöf handa barni í Úkraínu, en þar glíma margir við sára fátækt, mörg börn búa á munaðarleysingjaheimilum og allt of mörg börn þar fá enga jólagjöf. Með hverjum skókassa fækkar þeim börnum sem ekkert fá svo við vorum stolt af að skila inn 30 kössum í verkefnið í ár.
Foreldrar hafa verið einstaklega hjálpsamir við að afla aðfanga til verkefnisins og nemendurnir pökkuðu inn kössunum og röðuðu í þá af einstaklega mikilli natni og hlýju, vitandi að barnið sem hlýtur þeirra kassa fær bara þessa einu gjöf um jólin.
Með þátttöku í verkefninu viljum við undirstrika hversu mikilvægt og göfugt það er að hjálpa öðrum. Okkur þykir mikilvægt að geta sett okkur í spor annarra og við viljum leggja okkar af mörkum við að efla samkennd og samhyggð nemenda. Það að geta gert góðverk á sama tíma er okkur öllum ómetanlegt.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga til að kynna sér Jól í skókassa betur og leggja verkefninu lið ef þeir geta. Það munar um hvern kassa.
Nánar má lesa um Jól í skókassa hér: https://www.kfum.is/skokassar/

