Orð í verki

Eitt af megingildum Suðurhlíðarskóla er þjónusta. Þess vegna höfum við innleitt 3 góðverkadaga undir heitinu Orð í verki, en þá vinnur allur skólinn saman að ákveðnu verkefni í þjónustu við samfélagið.

Í ár ákváðum við að styrkja Samhjálp, sem vinnur virkilega göfugt starf alla daga í þjónustu við þá sem minna mega sín.  Dásemdin okkar hún Karli hóf verkið á að heimsækja Samhjálp fyrir nokkrum dögum, til að fá innsýn inn í þeirra starf og þarfir, og kom til baka í skólann með þau skilaboð að þau vantar mat!

Krakkarnir brettu því upp ermarnar! Sum hver tæmdu kæliskápa heimilisins og búrskápa og komu með til að gefa, einhver bökuðu bananabrauð í Félagsmiðstöðinni í gær og öll nýttu þau daginn í dag í að búa til alls konar góðgæti. Hér voru blómapottar skreyttir af natni og fylltir með káli og kryddjurtum, 9 stórar hjónabandssælur voru bakaðar, 130 pizzasnúðar, 93 súkkulaðimuffins og ósköpin öll af kókoskúlum! Góðgætið hefur verið sett í kæli og verður afhent Samhjálp á morgun.

Það getur verið erfitt að finna ilminn og horfa á raðirnar af nýbökuðu góðgæti en mega ekki fá, en það var ekki að finna á krökkunum í dag. Það var yndislegt að finna gleðina og gæskuna í verkum þeirra og gaman að geta veitt þeim vettvang til að gera eitthvað gott fyrir aðra. Þau nutu þess svo sannarlega.

Suðurhlíðarskóli er hluti af stóru neti skóla sem reknir eru af Aðventkirkjum út um allan heim. Þetta skólasamfélag, sem við erum svo stolt af að vera hluti af, leggur mikla áherslu á þá hugmyndafræði aðventista sem snýr að virðingu fyrir jörðinni okkar og þjónustu út í samfélagið.

Global Youth Day er dagur sem allir þessir skólar taka þátt í og hann snýst um að virkja yngri kynslóðirnar til að láta gott af sér leiða í sínu nærsamfélagi.  Í ár ber hann upp næsta laugardag og þá miðla skólarnir og kirkjurnar sínum verkum hvert með öðru á rafrænan hátt, svo allir geti valið úr góðum hugmyndum til að nýta árið á eftir.