Orð í verki – ADRA söfnunin

Í vikunni höfum við lært heilmargt um Mjanmar. Margt þar er mjög ólíkt Íslandi; t.d. eru sala á börnum, barnaþrælkun og barnahjónabönd staðreynd í Mjanmar og bilið milli ríkra og fátækra / sveita og borga er svakalega mikið.  Besta leiðin til að hjálpa þeim fátækustu er með menntun.

ADRA (alþjóðlegt hjálparstarf Kirkju sjöunda dags aðventista) hefur sett áherslu á byggingu skóla í Mjanmar þetta árið og því gengu nemendur okkar í hús hér í hverfinu (og víðar) og buðu fólki upp á að styrkja starfið.

Yfir 80% nemenda skólans mættu og 10 foreldrar sem tóku allir þátt í söfnuninni ásamt kennurum skólans. Aldrei höfum við safnað jafn miklu, en við erum komin yfir 400.000 krónur og eigum jafnvel von á meiru.

Krakkarnir fengu Domino’s pizzu að launum eftir söfnunina og bakkelsi svo þau fóru öll södd heim – bæði til líkama og sálar.

Það er svo gott að geta hjálpað og gefandi að sjá þegar margt smátt verður eitt risastórt. Við skiptum öll máli og það sem við gerum hefur afleiðingar. Okkur finnst sá lærdómur sá allra mikilvægasti og við erum svo þakklát fyrir að geta boðið krökkunum upp á fjölbreytta þátttöku í Orð í verki 3 sinnum á hverju skólaári.

Enn er tími til að leggja söfnuninni lið með því að millifæra á reikning 101-26-130, kt. 410169-2589.