Orð í verki – Jól í skókassa

Þessa vikuna hefur samhyggð og kærleikur flætt áþreifanlega um skólabygginguna í formi skókassa, gjafapappírs, tannbursta, leikfanga, sápustykkja, bangsa og alls kyns varnings sem nemendur skólans hafa látið af hendi rakna til að gleðja fátæk börn í Úkraínu um jólin, í gegnum verkefnið Jól í skókassa.

Við höfum haft þann háttin á að nemendur koma með varning að eigin vali og leggja í púkk í verkefnið. Við pörum svo nemendur saman, 2 og 2; þeir pakka saman inn skókssa, velja dót úr púkkinu í kassann sinn og merkja hann dreng/stúlku og aldri, eftir því sem hæfir innihaldi kassans.

Í morgun voru allir kassarnir okkar tilbúnir svo við fórum við með þá, í strætó, á Holtaveg 28 (hús KFUM&K), mótttökustöðvar verkefnisins Jól í skókassa. Þar er skókössunum safnað saman og þeim pakkað í gám fyrir flutninginn til Úkraínu. Vel var tekið á móti hópnum og ferli kassanna kynnt vel fyrir krökkunum.

Það er ávallt upplifun að mæta á Holtaveginn í byrjun nóvember og sjá yfrin öll af skókössum sem bíða þar í stöflum og stæðum. Farið er yfir hvern kassa áður en þeir eru settir í gáminn og mætti halda að maður væri staddur á verkstæði jólasveinsins eða álíka ævintýralegum stað þegar maður gengur þar um og skoðar.

Við leggjum mikla áherslu á Orð í verki hér í skólanum – samfélagsþjónustunám þar sem við látum gott af okkur leiða sem heild,  ýmist út í nærsamfélagið eða fjær. Okkur þykir það ómetanlegt að geta veitt nemendum okkar tækifæri til að hafa áhrif í stærra samhengi og sem kristnum skóla þykir okkur einstaklega vænt um ástríðuna og gleðina sem börnin leggja í þátttökuna.

Þátttaka í Jólum í skókassa er eitt þriggja stórra verkefna okkar á hverjum vetri undir yfirskriftinni Orð í verki.

Við hvetjum ykkur öll til að taka þátt í Jólum í skókassa. Lokaskiladagur skókassanna þetta árið er núna á laugardaginn, 13. nóvember.