Póstkort frá Noregi

Kæru vinir og velunnarar!

Við erum núna búin að dvelja nokkra daga í Tromsø og hingað til hefur gengið alveg svakalega vel. Nemendurnir eru ótrúlega blíðir, góðir og kurteisir og kennararnir eru að springa úr stolti! Kennararnir leggja sig fram um að troða mat í krakkana og þó sumir velji rjómaost eða lifrarkæfu á brauðið sitt erum við flest komin upp á bragðið með Nugatti og Sjokade. Við erum þó fæst búin að gera upp við okkur hvort okkur þykir betra. Reyndar var hvorki til ristavél né brauðrist (…) í skólanum svo við keyptum bara eina ódýra sem við ætlum að gefa skólanum þegar við förum.

Við flugum af stað eldsnemma á þriðjdaginn, millilentum í Osló og enduðum svo hér rúmlega 18:00 að staðartíma. Sem betur fer er flugvöllurinn nálægt Ekrehagen (vinaskólanum okkar sem við erum að heimsækja og gistum í) svo við vorum fljót að komast þangað. Paulina (starfsmaður Ekrehagen) hafði útbúið taco handa okkur með baunum og grænmeti, sem var mjög gott.

Við sofum á dýnum í skólastofum og þurfum á hverjum morgni að vakna snemma, borða, taka saman dótið okkar og gera sumar stofurnar klárar fyrir kennslu – og við stöndum okkur mjög vel í því.

Fyrsta daginn vorum við mest til hér í skólanum; fórum í alls kyns hópleiki og reyndum að kynnast en eftir hádegismatinn fórum við á Tromsø  museum þar sem við fengum góða fræðslu um Sama og þeirra sögu. Við vorum heppin að vera í skólanum þennan dag, því þetta er eini dagur vikunnar sem skólinn býður upp á hádegismat – alla aðra daga þurfa nemendur að koma sjálfir með allt nesti.
Um kvöldið buðu nemendur Ekrehagen okkur heim, 2-3 saman af hvoru þjóðerni. Það heppnaðist frábærlega og allir komu glaðir heim. 2 drengjanna hittu Íslendinga í sinni heimsókn og fóru í verslun sem selur íslenskan varning. Auðvitað voru þeir farnir að sakna íslenska Appelsínsins og Draums svo þeir versluðu smá.

Annan daginn fórum við með norsku vinum okkar í rútu til Kåfjord, í tungumálasetur Sama. Við fræddumst meira um sögu og menningu Sama, lærðum að segja nokkur orð á samísku, bjuggum til lyklakippur, smökkuðum Bidos (nokkurs konar súpu með kartöflum, gulrótum og hreindýrakjöti – hún er alls ekkert svo ólík kjötsúpunni okkar en skiptar skoðanir voru í hópnum um ágæti hennar), kíktum í bókabílinn sem lánar út bækur á norsku, samísku, kvænsku og úkraínsku og lærðum að snara hreindýr – sem gekk lygilega vel. Um kvöldið héldum við svo smá partý í Ekrehagen; pöntuðum pizzu frá Pizzabakeren, fórum í leiki í íþróttasalnum og bökuðum vöfflur í kvöldkaffið. Um helmingur norsku nemendanna valdi að gista í skólanum með okkur svo partýið stóð langt fram eftir og við fengum öll að sofa aðeins lengur daginn eftir.

Við eigum alveg rosalega margar myndir sem við viljum deila með ykkur svo við ætlum að stoppa hér og senda annað póstkort fljótlega, um næstu daga.